Sími 441 6200

Jólalög

Jólalög

Í skóginum
Í skóginum stóð kofi einn,
sat við gluggann jólasveinn.
Þá kom lítið héraskinn,
sem vildi komast inn.
Jólasveinn ég treysti´ á þig,
veiðimaður skýtur mig.
Komdu litla héraskinn.
því ég er vinur þinn.  

En veiðimaður kofann fann,
Jólasveinninn spurði hann;
"Hefur þú séð héraskinn
hlaupa um hagann þinn ? "
"Hér er ekki héraskott.
Hafa skaltu þig á brott."
Veiðimaður burtu gekk,
og engan héra fékk.

Adam átti syni sjö
Adam átti syni sjö,
sjö syni átti Adam.
Adam elskaði alla þá
og allir elskuðu Adam.
Hann sáði, hann sáði.
Hann klappaði saman lófunum.
Hann stappaði niður fótunum.
Hann ruggaði sér í lendunum
og snéri sér í hring.

Jólasveinar einn og átta
Jólasveinar einn og átta
ofan komu úr fjöllunum.
Í fyrrakvöld þeir fóru að hátta,
fundu´ann Jón á Völlunum.

Andrés stóð þar utan gátta,
það átti að færa´ann tröllunum.
Þá var hringt í Hólakirkju
öllum jólabjöllunum

Höfundur  texta: Þjóðvísa
Höfundur lags: F. Montrose

Skín í rauðar skotthúfur
Skín í rauðar skotthúfur
skuggalangan daginn,
jólasveinar sækja að
sjást um allan bæinn.
Ljúf í geði leika sér
lítil börn í desember,
inn í frið og ró, útí frost og snjó
því að brátt koma björtu jólin,
bráðum koma jólin.

Uppi á lofti, inni í skáp
eru jólapakkar,
titra öll af tilhlökkun
tindilfættir krakkar.
Komi jólakötturinn
kemst hann ekki í bæinn inn,
inn í frið og ró, útí frosti og snjó,
því að brátt koma björtu jólin,
bráðum koma jólin.

Það á að gefa börnum brauð
Það á að gefa börnum brauð
að bíta í á jólunum,
kertaljós og klæðin rauð
svo komist þau úr bólunum.

Væna flís af feitum sauð
sem fjalla gekk á hólunum.
Nú er hún gamla Grýla dauð,
gafst hún upp á rólunum

Jólasveinar ganga um gólf
Jólasveinar ganga um gólf
með gildan staf í hendi,
móðir þeirra sópar gólf
og flengir þá með vendi.
:,: Upp á stól stendur mín kanna,
níu nóttum fyrir jól 
þá kem ég til manna :,:

 

Á jólanum er gleði og gaman
:.: Á jólunum er gleði og gaman
fúm, fúm, fúm :.:
Þá koma allir krakkar með
í kringum jólatréð.
Þá mun ríkja gleði og gaman,
allir hlæja og syngja saman
fúm, fúm, fúm!

:.: Og jólasveinn með sekk á baki
fúm, fúm, fúm :.:
Hann gægist inn um gættina
á góðu krakkana.
Þá mun ríkja gleði og gaman,
allir hlæja og syngja saman
fúm, fúm, fúm!

:.: Á jólunum er gleði og gaman
fúm, fúm, fúm :.:
Þá klingja allar klukkur við
og kalla á gleði og frið.
Þá mun ríkja gleði og gaman,
allir hlæja og syngja saman
fúm, fúm, fúm!

Lag: Þjóðlag frá Katalóníu
Texti: Friðrik Guðni Þórleifsson

Ég sá mömmu kyssa jólasvein
Ég sá mömmu kyssa jólasvein
við jólatréð í stofunni í gær.
Ég læddist létt á tá,
til að líta gjafir á,
hún hélt ég væri steinsofandi 
Stínu dúkku hjá
.

Og ég sá mömmu kitla jólasvein
og jólasveinninn út um skeggið hlær.
Já, sá hefði hlegið með,
hann faðir minn hefði hann séð,
mömmu kyssa jólasvein í gær.

Hinrik Bjarnason

Bjart er fyrir Betlehem

Bjart er yfir Betlehem,
blikar jólastjarna.

Stjarnan mín og stjarnan þín,
stjarna allra barna.

Var hún áður vitringum
vegaljósið skæra.
Barn í jötu borið var,
barnið ljúfa, kæra.

Víða höfðu vitringar
vegi kannað hljóðir
fundið sínum ferðum á
fjöldamargar þjóðir.
Barst þeim allt frá Betlehem
birtan undur skæra.
Barn í jötu borið var,
barnið ljúfa kæra.

Barni gjafir báru þeir.
Blítt þá englar sungu.
Lausnaranum lýstu þeir,
lofgjörð drottni sungu.
Bjart er yfir Betlehem
blikar jólastjarna,
Stjarnan mín og stjarnan þín
stjarna allra barna.
Lag: Enskt lag
Texti: Ingólfur Jónsson

Bráðum koma blessuð jólin

Bráðum koma blessuð jólin
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt
í það minnsta kerti og spil.
Kerti og spil, kerti og spil,
í það minnsta kerti og spil.

Hvað það verður veit nú enginn,
vandi er um slíkt að spá.
En eitt er víst að alltaf verður
ákaflega gaman þá.
Gaman þá, gaman þá,
ákaflega gaman þá.

Jóhannes úr Kötlum

Þá nýfæddur Jesú
Þá nýfæddur Jesú í jötunni lá
á jólunum fyrstu var dýrðlegt að sjá,
þá sveimuðu englar frá himninum hans
því hann var nú fæddur í líkingu manns.

Þeir sungu "hallelúja" með hátíðarbrag,
"nú hlotnast guðsbörnum friður í dag",
og fagnandi hirðarnir fengu að sjá
hvar frelsarinn okkar í jötunni lá.

Ég bið þig, ó Drottinn, að dvelja mér hjá,
að dýrðina þína ég fái að sjá,
ó blessa þú, Jesú, öll börnin þín hér,
að búa þau fái á himnum með þér.

(Björgvin Jörgensson)

Krakkar mínir komið þið sæl

Krakkar mínir komið þið sæl,

hvað er nú á seyði?

Áðan heyrði ég eitthvert væl

upp á miðja heiði.

Sjáið þið karlinn

sem kemur þarna inn,

:,: kannske það sé blessaður

jólasveinninn minn. :,:

 

Ég hef annars sjaldan séð

svona marga krakka.

Eitthvað kannske er ég með

sem ekki er vont að smakka.

Blessaður karlinn,

já, komdu hérna inn.

:,:  Hvað er þarna í pokanum,

jólasveinninn minn. :,:

 

Það fáið þið seinna að sjá,

svona, engin læti!

Ég er komin fjöllum frá

og fæ mér bara sæti.

Segðu okkur góði,

hvað sástu í þinni ferð.

:,: Seinna máttu gefa okkur

dálítinn jólaverð. :,:

 
Lag: Helgi Helgason

Ljóð: Þorsteinn Ö. Stephensen

Snæfinnur snjókarl
Snæfinnur snjókarl
var með snjáðan pípuhatt,
Gekk í gömlum skóm
og með grófum róm
gat hann talað, rétt og hratt.
"Snæfinnur snjókarl!
Bara sniðugt ævintýr,"
segja margir menn,
en við munum enn
hve hann mildur var og hýr.

En galdrar voru geymdir
í gömlu skónum hanns:
Er fékk hann þá á fætur sér
fór hann óðara í dans.
Já, Snæfinnur snjókarl,
hann var snar að lifna við,
og í leik sér brá
æði léttur þá,
-uns hann leit í sólskinið.

(Hinrik Bjarnason/Steve Nelson)  

Klukkurnar
Klukkurnar dinga-linga-ling,
klingja um jól.
Börnin safnast saman,
sungin jólavísa,
komið er að kveldi,
kertin jóla lýsa.
Klukkurnar dinga-linga-ling
klingja um jól.

Klukkurnar dinga-linga-ling
klingja um jól.
Loftið fyllist friði,
fagra heyrum óma,
inn um opinn gluggann
allar klukkur hljóma.
Klukkurnar dinga-linga-ling
klingja um jól.

Ólafur Gaukur

Aðventukertin
Við kveikjum einu kerti á .
Hans koma nálgast fer
sem fyrstu jól í jötu lá
og jesúbarnið er

Við kveikjum tveimur kertum á 
og komu bíðum hans,
því drottinn sjálfur soninn þá
mun senda´í líking manns.

Við kveikjum þremur kertum á,
því konungs beðið er,
þótt Jesús sjálfur jötu og strá
á jólun kysi sér.

Við kveikjum fjórum kertum á.
Brátt kemur gesturinn, 
og allar þjóðir þurfa að sjá,
að það er frelsarinn.

Gekk ég yfir sjó og land
Gekk ég yfir sjó og land
og hitti þar einn gamlan mann,
spurði hann og sagði svo:
Hvar áttu heima?
Ég á heima á Klapplandi, Klapplandi, Klapplandi.
Ég á heima á Klapplandi,
Klapplandinu góða.

Síðan kemur

Stapplandi, Grátlandi, Hlælandi, Hoppandi, og Íslandi

 

Göngum við í kringum...
Göngum við í kringum einiberjarunn,
einiberjarunn, einiberjarunn.
Göngum við í kringum einiberjarunn,
snemma á mánudagsmorgni.
Svona gerum við er við þvoum okkar þvott,
þvoum okkar þvott, þvoum okkar þvott,
svona gerum við þegar við þvoum okkar þvott,
snemma á mánudagsmorgni.

Þriðjud: Vindum okkar þvott
Miðvikud: Hengjum okkar þvott
Fimmtud: Teygjum okkar þvott
Föstud: Straujum okkar þvott
Laugard: Skúrum okkar gólf
Sunnud, snemma: Greiðum okkar hár
Sunnud, seint: Göngum kirkjugólf

Babbi segir
Babbi segir, babbi segir:
"Bráðum koma dýrðleg jól".
Mamma segir, mamma segir:
"Magga fær þá nýjan kjól".
Hæ, hæ, ég hlakka til,
hann að fá og gjafirnar.
Bjart ljós og barnaspil,
borða sætar lummurnar.

Babbi segir, babbi segir:
"Blessuð Magga ef starfar vel,
henni gef ég, henni gef ég
hörpudisk og gimburskel."
Hæ, hæ, ég hlakka til
hugljúf eignast gullin mín.
Nú mig ég vanda vil,
verða góða telpan þín.

Mamma segir, mamma segir:
"Magga litla ef verður góð,
henni gef ég, henni gef ég
haus á snoturt brúðufljóð."
Hæ, hæ, ég hlakka til,
hugnæm verður brúðan fín.
Hæ, hæ, ég hlakka til,
himnesk verða jólin mín.

Nú ég hátta, nú ég hátta
niður í, babbi, rúmið þitt,
ekkert þrátta, ekkert þrátta,
allt les "Faðirvorið" mitt.
Bíaðu, mamma, mér,
mild og góð er höndin þín.
Góða nótt gefi þér
Guð, sem býr til jólin mín.

Lag: Rússneskt lag
Texti: Benedikt Gröndal

 

Nú skal segja
Nú skal segja, nú skal segja
hvernig litlar telpur gera:
Vagga brúðu, vagga brúðu
-og svo snúa þær sér í hring.

Nú skal segja, nú skal segja
hvernig litlir drengir gera:
Sparka bolta, sparka bolta
-og svo snúa þeir sér í hring.

Nú skal segja, nú skal segja
hvernig ungar stúlkur gera:
Þær sig hneigja, þær sig hneigja
-og svo snúa þær sér í hring.

Nú skal segja, nú skal segja
hvernig ungir piltar gera:
Taka ofan, taka ofan
-og svo snúa þeir sér í hring.

Nú skal segja, nú skal segja
hvernig gamlar konur gera:
Prjóna sokka, prjóna sokka
-og svo snúa þær sér í hring.

Nú skal segja, nú skal segja
hvernig gamlir karlar gera:
Taka í nefið, taka í nefið
-og svo snúa þeir sér í hring.
AAAtsjúú!!!

Nú er Gunna á nýju skónum
Nú er Gunna á nýju skónum,
nú eru´að koma jól.
Siggi er á síðum buxum,
Solla´á bláum kjól.
:.: Solla´á bláum kjól :.:
Siggi er á síðum buxum,
Solla´á bláum kjól.

Mamma er enn í eldhúsinu
eitthvað að fást við mat.
Indæla steik hún er að færa
upp á stærðar fat.

Pabbi enn í ógnarbasli
á með flibbann sinn.
"Fljótur, Siggi, finndu snöggvast
flibbahnappinn minn".

Kisu er eitthvað órótt líka,
út fer brokkandi.
Ilmurinn úr eldhúsinu
er svo lokkandi.

Jólatréð í stofu stendur,
stjörnuna glampar á.
Kertin standa á grænum greinum,
gul og rauð og blá.

Texti: Ragnar Jóhannesson

Snjókorn falla
Snjókorn falla á allt og alla
börnin leika og skemmta sér
nú ert árstíð kærleika og friðar
komið er að jólastund
Vinir hittast og halda veislur
borða saman jólamat
gefa gjafir - fagna sigri ljóssins
syngja saman jólalag.

Á jólaball við höldum í kvöld
ég ætl'a' kyssa þig undir mistiltein í kvöld
við kertaljóssins log
Götur ljóma - söngvar óma
gömlu lögin syngjum hátt
bara'ef jólin væru aðeins lengri
en hve gaman væri þá.

 

Þyrnirós
Hún Þyrnirós var besta barn,
besta barn, besta barn.
Hún Þyrnirós var besta barn,
besta barn.

Þá kom þar galdrakerling inn,
kerling inn, kerling inn.
Þá kom þar galdrakerling inn,
galdrakerling inn.

"Á snældu skaltu stinga þig,
stinga þig, stinga þig.
Á snældu skaltu stinga þig,
stinga þig.

Og þú skalt sofa í heila öld,
heila öld, heila öld.
Og þú skalt sofa í heila öld,
heila öld."

Hún Þyrnirós svaf heila öld,
heila öld, heila öld.
Hún Þyrnirós svaf heila öld,
heila öld.

Og þyrnigerðið hóf sig hátt,
hóf sig hátt, hóf sig hátt.
Og þyrnigerðið hóf sig hátt,
hóf sig hátt.

Þá kom hinn ungi konungsson,
konungsson, konungsson.
Þá kom hinn ungi konungsson,
konungsson.

"Ó, vakna þú mín Þyrnirós,
Þyrnirós, Þyrnirós.
Ó, vakna þú mín Þyrnirós,
Þyrnirós."

Og þá var kátt í höllinni,
höllinni, höllinni.
Og þá var kátt í höllinni,
höllinni.

Heims um ból
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
:,: meinvill í myrkrunum lá :,:

Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
:,: konungur lífs vors og ljóss :,:

Heyra má himnum í frá
englasöng: “Allelújá”.
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
:,: samastað syninum hjá :,:

Sveinbjörn Egilsson

Skreytum hús
Skreytum hús með greinum grænum, 
Fa la la la la la la la la.
Gleði ríkja skal í bænum,
Fa la la la la la la la la.
Tendrum senn á trénu bjarta,
Fa la la la la la la la la.
Tendrum jól í hverju hjarta
Fa la la la la la la la la.

 Ungir, gamlir - allir syngja:
Fa la la la la la la la la.
Engar sorgir hugann þyngja,
Fa la la la la la la la la.
Jólabjöllur blíðar kalla,
Fa la la la la la la la la.
boða frið um veröld alla,
Fa la la la la la la la la!

(Elsa E. Guðjónsson 1953/ Jólalag frá  Wales)

 

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica