Foreldrar og börn saman í aðlögun – grein eftir Kristínu Dýrfjörð

Ný aðferð við aðlögun barna hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarið ár hérlendis. Aðferðin hefur verið reynd í skólum sem starfa í anda Reggio Emilia í Svíþjóð í nokkur ár og gefist vel. Hún felst í því að allt að allir foreldrar og börn sem eiga að byrja á sömu deild mæta saman í leikskólann. Fyrst er fundur með foreldrum og starfsfólki þar sem starfsfólkið kynnir sig, deildina og segir frá því sem framundan er. Á þennan fund mæta foreldrar án barna. en foreldrar eru svo með sínum börnum næstu þrjá daga. Mæta klukkan 9.00 og fara með börnin klukkan 15.00. Í Svíþjóð hafa sumir skólar farið þá leið að foreldrar mæta með börnin milli hálf tíu og hálf tólf fyrsta daginn en næsta dag allan daginn. Foreldrarnir eru inn á deild með sínum börnum allan tímann (nema þegar þau sofa). Foreldrar sinna sínum börnum skipta á þeim og gefa að borða og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn setur út verkefni (og skráir). En á fjórða degi koma börnin um morguninn kveðja foreldra og eru svo allan daginn. Einstaka börn hafa foreldra sína fjóra daga en reynslan sýnir að þau eru fá. Með þessu móti er allri aðlögun lokið í lok ágúst. Eins og leikskólafólk veit er aðlögunartíminn oft gríðarlega erfiður, fyrir börn og starfsfólk og foreldra. Oft er mikið grátið og þá þarf sterk bein hjá starfsfólkinu. Með þessari aðferð hefst allt vetrarstarf fyrr og álag á börn, foreldra og starfsfólk er minna. Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli er að öruggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Öruggir foreldrar = örugg börn. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum. Annar kostur er að foreldrar tengjast hver öðrum og milli þeirra skapast oft vinskapur.  

 

Þessi útgáfa af aðlögun hefur hlotið nafnið „Þátttökuaðlögun“ og höfum við tekið hana upp hér í Fögrubrekku. Við líkt og aðrir íslenskir leikskólar höfum aðlagað hana að okkar starfi en grunnhugmyndin er sú sama og Kristín lýsir hér að ofan. Foreldrar eru með börnum sínum allan tíman sem þau eru í leikskólanum þessa daga og taka þátt í starfinu og sinna í raun að mestu umönnum barns síns, skipta t.d. á bleyjum eða aðstoða á klósett, aðstoða barnið í matartímum og liggja hjá því þar til barnið sofnar í hvíld. Hlutverk starfsfólks er að vera til staðar fyrir börn og foreldra, halda utan um skipulag dagsins og að sjálfsögðu að venja börnin að sér. Hvert barn fær sérstaka lykilpersónu úr starfshópi síns hóps sem sinnir að mestu samskiptum við börn og foreldra á meðan á aðlögun stendur.

Hefðbundin aðlögunarvika á Fögrubrekku er skipulögð á eftirfarandi hátt:

Mánudagur: Foreldraviðtal. Foreldrar mæta án barns í viðtal og til þess að fylla út og skrifa undir gögn.

Þriðjudagur: Fyrsti dagur barnsins. Mætt er á venjulegum mætingartíma barnsins og er viðveran fram yfir hádegisverð.

Miðvikudagur: Viðvera frá morgni og fram yfir hvíld.

Fimmtudagur: Viðvera frá morgni og fram yfir kaffitíma. Ef vel gengur getur foreldri fengið að kíkja frá í smá stund um morguninn.

Föstudagur: Þennan dag mætir foreldri með barnið en fer svo fljótlega. Foreldrar eru þó á einskonar bakvakt þennan dag. Reynsla okkar er þó sú að yfirleitt séu börnin tilbúin í heilan dag án foreldra á fjórða degi.